top of page

Hverju þarf að huga að?

Við andlát

Ástvinamissir er reynsla sem hefur mikil áhrif á líðan, tilfinningar, hugsanir og athafnir syrgjenda. Í sorg er öllum mikilvægt að fá viðurkenningu á líðan sinni, svo og tækifæri og tíma til að deila reynslu sinni með nákomnum eða öðrum sem eru fúsir að veita aðstoð. Við sem störfum hjá Borg útfararþjónustu veitum persónulega þjónustu með virðingu og nærgætni að leiðarljósi og erum til þjónustu fyrir aðstandendur alla daga meðan á skipulagi útfarar stendur og alltaf hægt að hafa samband við okkur. 

Í sorgarferli þurfa aðstandendur að huga að mörgum mikilvægum atriðum er varða útför ástvinar þeirra. Fljótlega eftir andlát er gott að aðstandendur og útfararstjóri mæli sér mót og ræði næstu skref. Hægt er að hafa slíkan fund þar sem aðstandendum hentar best. Algengast er að útfararstjóri komi heim til aðstandenda og fari yfir næstu skref um undirbúning og skipulag vegna útfarar. Þegar haft er samband við útfararstjóra eða prest þarf að hafa eftirfarandi upplýsingar um hinn látna: Fullt nafn, kennitölu, lögheimili, dánarstað, starfsheiti. Nafn nánasta aðstandanda, lögheimili hans, kennitala og sími. 

Við getum veitt upplýsingar um hagnýt atriði t.d er varða tryggingamál og aðrar breytingar sem verða á högum fólks sem eftir stendur í kjölfar andláts.


Prestur/athafnastjóri eða forstöðumaður trúfélags
Aðstandendur velja þann sem þau óska að taki að sér útförina. Gott er að heyra beint í viðkomandi, en útfararstjóri aðstoðar að koma á sambandi ef þess er óskað.

Staður og stund
Í samráði við prest/athafnastjóra eða forstöðumann trúfélags er staður og stund fyrir kistulagningarbæn og útför ákveðin.
 

Kistulagning og kistulagningarathöfn
Við kistulagningu búum við um hinn látna til hinstu kveðju ástvina. Okkur finnst mikilvægt að sú stund sé falleg og leggjum mikinn metnað og natni í útlit og umgjörð.

Kistulagningarathöfnin sjálf er stutt kveðjuathöfn fyrir nánustu aðstandendur, oftast í kirkju, með eða án tónlistar. Algengt er að hafa slíka stund 1-2 klst fyrir útför. 

Jarðarför eða bálför
Borg útfararþjónusta annast bæði jarðarfarir og bálfarir eftir óskum hins látna og aðstandenda. Prestur eða athafnastjóri hafa umsjón með athöfninni sjálfri og starfa útfararstjórar náið með þeim. Útfararþjónustan hjálpar einnig til við val á kistu eða duftkeri eftir óskum aðstandenda.

Sálmaskrá
Útfararþjónustan hjálpar til með útfærslu á sálmaskrá eftir óskum aðstandenda.

Tónlist

Á skrá hjá okkur er margvíslegt tónlistarfólk s.s. kórar, hópar og einstaklingar með ólíkan flutning. 

Erfidrykkja
Við höfum milligöngu um húsnæði og veitingar, sé þess óskað. Margt er í boði og ýmsar leiðir færar. 

Legstaður
Ef frátekinn legstaður er ekki fyrir hendi mun útfararstjóri útvega legstað í samráði við aðstandendur. Rétt er að hafa í huga að hægt er að taka frá einn eða tvo legstaði við hlið hins látna.

bottom of page